150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[16:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Nefnd um málið mun hefja störf í upphafi nýs þings og leggur ríkisstjórnin áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.“

Nefnd skipuð formönnum flokka sem sæti eiga á Alþingi hefur nú fundað nokkrum sinnum á þeim tæplega tveimur árum sem liðin eru frá því að ríkisstjórnin tók við. Er sú vinna enn í gangi og allt gott og blessað með það og breytir framlagning þessa frumvarps engu þar um. Breytir minnisblað Bjarna Benediktssonar, hæstv. fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokks, heldur engu þar um. Í minnisblaðinu sem hann lagði fram á fundi umræddrar formannanefndar áréttar hann stefnu síns flokks sem flokksbróðir hans, hv. þm. Sjálfstæðisflokks Birgir Ármannsson, hefur margítrekað í dag, að Sjálfstæðisflokkurinn leggist eindregið gegn heildarendurskoðun á þessu bráðabirgðaplaggi sem danski konungurinn gaf okkur Íslendingum náðarsamlegast. Þetta frumvarp sem við fáum í hendur hér í þinginu og mun fara í vinnslu hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vinnur nefnilega ágætlega með vinnu formannanefndarinnar. Hvers vegna það? Jú, vegna þess að stjórnarskrárgjafinn er íslenska þjóðin. Þjóðin skal kjósa um stjórnarskrá en löggjafinn er Alþingi og það er okkar hér að vinna frumvörp til stjórnarskipunarlaga og klára málið. Hér gefst almenningi og félagasamtökum kostur á að senda inn umsagnir og mæta fyrir nefndir.

Þetta er gangur þingsins, herra forseti, og þess vegna gleðst ég yfir framlagningu þessa frumvarps í dag og vil þakka öllum þeim sem hafa tekið til máls. Þó verð ég að játa hvort tveggja fullkomið kæruleysi og barnaskap því að ég hef ekki, líkt og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kveðst hafa gert, barist fyrir nýrri stjórnarskrá frá því að ég byrjaði að lesa. Ég vissi ekkert af því að við ættum stjórnarskrá þegar ég byrjaði að lesa. Þá var ég bara að lesa bækur Guðrúnar Helgadóttur og Enid Blyton en las minna af stjórnarskipunarlögum eða öðrum lögum almennt og er ekki viss um að ég hafi vitað þegar ég byrjaði að lesa að til væri eitthvað sem héti almenn lög. Svona erum við ólík, fólkið sem starfar á Alþingi, og er það gott.

Mig langar af því tilefni að við ræðum þetta nýframlagða frumvarp um nýja stjórnarskrá að fara aðeins yfir sögu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Hér hafa þingmenn farið nokkuð yfir söguna frá því að Jóhanna Sigurðardóttir, þá forsætisráðherra, setti stjórnarskrána aftur á dagskrá árið 2010 en það hafði hún áður, þá sem óbreyttur þingmaður, margsinnis gert í sinni tíð, svo jaðrar við þráhyggju og þakka ég henni mjög fyrir þá þráhyggju.

Mig langar að fara lengra aftur í tímann, aftur til þeirrar öldnu skrár sem enn er við lýði á Íslandi dagsins í dag, þeirrar stjórnarskrár sem okkur landsmönnum hefur verið kennt að Kristján IX. hafi afhent okkur, enda er stytta af afhendingunni beinlínis fyrir framan Stjórnarráðið. En það var ekkert Kristján IX. sem afhenti okkur plaggið, enda ku hann hafa haft álíka mikinn áhuga á þessum málefnum Íslendinga, þar með talið stjórnarskránni, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur á stjórnarskránni í dag. Kristján þessi IX. kom í heimsókn til Íslands 1874. Stjórnarskráin barst hins vegar til Íslands 1904 og var send aftur utan 1928. Styttan góða fyrir framan Stjórnarráðið telst því vera sögufölsun, herra forseti, og er það miður.

Það er líka svolítið um sögufölsun í umræðu um nýju stjórnarskrána og farið mikinn, eða kannski ekki sögufölsun heldur meira söguskekkja eða tilraun til söguskekkju. Það hefur mjög mikið verið talað um að verið sé að kollvarpa núgildandi stjórnarskrá og eru það helst hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og fylgitungl þeirra sem svo ræða í opinberri umræðu.

Frá árinu 1874–1942 voru lögð fram 36 mál á þingi til breytinga á stjórnarskránni. Fjórum sinnum náðu breytingar fram að ganga, þar á meðal þegar stofna átti lýðveldið Ísland. Þingmannanefnd skyldi smíða tillögur til breytinga á stjórnarskránni en skýrt var tekið fram að óheimilt væri að gera nokkrar aðrar breytingar á þeim tíma en þær sem beinlínis leiddu af sambandsslitunum við Danmörku og lýðveldisstofnun. Mikilvæg forsenda þeirrar samstöðu sem ríkti við afgreiðslu breytinganna 1944 var að þær náðu aðeins til afmarkaðra þátta í stjórnskipuninni en í áliti sagði að nefndin skyldi áfram undirbúa aðrar breytingar á stjórnskipulaginu. Felld voru út ákvæði um konunginn og innleidd ákvæði um forseta. Hlutverk forseta var að flestu leyti mjög sambærilegt við hlutverk konungs áður.

Að öðru leyti stóð stjórnarskráin óbreytt en frekari breytingar áætlaðar. 12 manna nefnd var skipuð til ráðgjafar eldri nefnd og enn var skipuð nefnd og aftur, tveimur árum síðar, enn nefnd vegna þess að fyrri nefnd hafði lognast út af. Á árunum 1944–2005 komu fram ítrekaðar tilraunir tillögur um skipan nefndar til heildarendurskoðunar á stjórnarskrá án nokkurs árangurs. Hef ég gantast með það hér að Sigurður Líndal hafi líklega setið í öllum stjórnarskrárnefndunum allt frá árinu 1874, enda var hann iðulega sá sem helst var og fyrstur var skipaður í nefndir um stjórnarskrá.

Einstaka breytingar hafa verið gerðar á öllum þessum tíma og þá aðallega er varða þingið sjálft þegar þingmenn hafa fundið sig knúna til að breyta kjördæmaskipan og afnám deildaskiptingar. Þar er eiginlega um að ræða eitthvað innan húss, vinnustaðapólitík. Þá fannst þeim alveg upplagt að breyta þessum samfélagssáttmála Íslendinga af því að það þurfti að ákveða hver ætti hvaða skrifborð inni á þingi. Þá mátti breyta stjórnarskránni. En þegar kemur að eigum Íslendinga eða mannréttindum eða lýðræði eða öðru, nei, þá er málið of umdeilt, í bullandi ágreiningi.

Í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins var samþykkt breyting á mannréttindakaflanum. Það virðist hafa verið í sátt Sjálfstæðisflokksins sem lagðist ekki í langt málþóf yfir breytingum á mannréttindakaflanum, enda fylgdi sú breyting aðild okkar að mannréttindasáttmála Evrópu. Lítið fer fyrir umræddri sátt í dag og að sögn hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins nauðsynlegri sátt. Þess vegna sitjum við enn þá uppi með samfélagssáttmála íslensku þjóðarinnar sem er bráðabirgðaplagg og að mörgu leyti úrelt.

Sú heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem átti að fara fram eftir að Ísland varð lýðveldi fór loksins af stað með skipun stjórnlagaráðs, 25 einstaklinga úr ýmsum áttum. Þetta var samþykkt á Alþingi árið 2010 með lögum um stjórnlagaþing og svo var kosin stjórnlaganefnd sem var falið að undirbúa þjóðfund og kosningu stjórnlagaþings. Það er búið að fara vel yfir allt það ferli í dag þannig að ég ætla ekki að þreyta hv. þingmenn með því að ítreka og endurtaka það sem hefur verið fjallað um frá árinu 2010. Þetta hefur verið reifað ítarlega m.a. af hv. flutningsmanni þessa frumvarps, Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, sem með flutningnum tekur við keflinu af fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur. Saman munum við, með styrku liðsinni annarra þingmanna, halda því kefli á lofti enda verkinu við heildarendurskoðun á bráðabirgðaplagginu enn ólokið.

Nýja stjórnarskráin var samin, ritrýnd, unnin og lagfærð og um hana kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu en þjóðarviljinn var og er enn virtur að vettugi af þingflokki Sjálfstæðisflokks og að mér sýnist annarra stjórnarflokka sem einhvern veginn hafa verið fjarverandi í umræðunni í dag. Þjóðarviljinn er virtur að vettugi vegna þess að hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, og mögulega annarra stjórnarflokka, finnst ekki tímabært að fara í heildarendurskoðun. Þar er bara meiri hluti almennings ósammála og var líka ósammála í fyrra þegar gerð var skoðanakönnun. Þá sagði einmitt meiri hluti þjóðarinnar að það ætti að ljúka þessari vinnu.

Hvar er þá ágreiningurinn? Er það enn einu sinni Sjálfstæðisflokkurinn versus þjóðin? Þar virðist ágreiningurinn liggja. Ég verð að hryggja hv. þm. Birgi Ármannsson, sem stendur hér vaktina fyrir ríkisstjórnina í dag og er að öðrum ólöstuðum öflugasti varðmaður gömlu bráðabirgðastjórnarskrárinnar, með því að ég held að hann verði á endanum undir í baráttu sinni fyrir langlífi og áframhaldandi lífi bráðabirgðaplaggs, enda tel ég íslensku þjóðina eiga það skilið að fá núna sinn eigin samfélagssáttmála.