150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[16:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst sumt í sagnfræðilegri upprifjun hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur áhugavert og hefði viljað að hún færi aðeins nánar yfir þær breytingar sem hafa orðið á stjórnarskránni frá 1944. Hún gerði lítið úr þeim breytingum en engu að síður hefur stjórnarskránni verið breytt sjö sinnum frá lýðveldisstofnun. Ég man ekki hvort það eru 46 eða 48 af núgildandi ákvæðum sem hefur verið breytt frá þeim tíma. Það má auðvitað vera þeirrar skoðunar að það sé allt of lítið, en það er umtalsvert engu að síður.

Það þýðir líka að allt tal um heildarendurskoðun hefur annan blæ í dag en 1944. Heildarendurskoðun getur farið fram með ýmsum hætti. Hún getur farið fram með þeim hætti t.d. sem hæstv. forsætisráðherra hefur lagt upp með, að það sé farið í gegnum einstaka kafla og einstök ákvæði stjórnarskrárinnar og það rætt og metið og eftir atvikum lagt til að breyting verði gerð. Það er líka hægt að gefa sér fyrir fram að það verði að breyta sem mestu og þannig er nálgun stjórnlagaráðs.

Þegar vísað er til þess að hinn óbilgjarni þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi staðið gegn öllum breytingum verð ég að minna á að afstaða Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum hefur legið nokkuð skýr fyrir frá kjörtímabilinu 2009–2013. Alloft hefur verið efnt til kosninga í landinu frá þessum tíma. Alloft hafa komið fram flokkar sem hafa veifað því mjög í kosningabaráttunni að þeir legðu höfuðáherslu á það að koma tillögum stjórnlagaráðs í gegn. Það er ekki eins og (Forseti hringir.) kjósendur hafi ekki haft tækifæri á þessu sjö ára tímabili til að hafa með einhverjum hætti áhrif á atburðarásina í þessum efnum.