150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[16:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, það er aðeins farið að fenna yfir það hjá mér sem við ræddum hér 1944. Ég verð þó að segja að ég hygg, án þess að ég vilji fullyrða of mikið, að þegar menn töluðu um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar 1944 hafi þeir haft afskaplega mismunandi hugmyndir um það á þingi hvað þeir áttu við. Ég held að það hafi líka endurspeglast í þeirri vinnu sem átti sér stað strax í kjölfar lýðveldisstofnunarinnar og fram á sjötta áratuginn. Margir töluðu um stjórnlagabreytingar, sumir um miklar breytingar, aðrir um litlar, og eins og oft og iðulega er hafa einstakir flokkar og einstakir menn mjög mismunandi viðhorf til þess hvernig þeir meta slíka hluti. Allt í góðu með það, við komumst ekki lengra með það.

Hv. þingmaður nefndi þær breytingar sem hafa orðið á stjórnarskránni á lýðveldistímanum og ég hygg að þetta sé einmitt til á heimasíðu Alþingis í samantekt efnis um stjórnarskrármál. Það er kannski ekki alveg aðgengilegt fyrir almenning að komast inn í það en með smáleit á heimasíðu Alþingis er hægt að komast í mjög viðamikið efni um stjórnarskrármál og þar á meðal um þetta og þá held ég að menn sjái eins og ég reyndi að koma að í fyrra andsvari mínu, að þrátt fyrir það sem sagt hefur verið hafa orðið umtalsverðar breytingar á stjórnarskránni á lýðveldistímanum í sex eða sjö lotum. Meiri hluti greinanna sem nú standa í stjórnarskránni er breyttur frá því sem áður var. Auðvitað getum við verið þeirrar skoðunar að það sé of lítið. Ég get verið þeirrar skoðunar, eins og margir í umræðunni í dag, að einstök ákvæði núverandi stjórnarskrár séu þannig að það sé ástæða til að breyta þeim. Ég er tilbúinn að samþykkja það (Forseti hringir.) en að það þurfi að henda út öllu hinu gamla og taka upp allt nýtt er ég ekki alveg tilbúinn að skrifa upp á. (Gripið fram í.)