150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[16:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvar. Það er þetta með skilning fólks árið 1944 á orðinu heildarendurskoðun. Söguritarar segja þó að við atkvæðagreiðsluna á þeim tíma hafi verið skýrt tekið fram að hér ætti eingöngu að greiða atkvæði um þennan þátt, þ.e. varðandi stofnun lýðveldis, vegna þess að hitt tæki of langan tíma. Það var ekki meiri misskilningur eða ólíkur skilningur á þessu en svo að sérstaklega var tekið fram að ekki ætti að fara í heildarendurskoðun þá og þess vegna væri bráðabirgðaplaggið látið duga. Nefnd var strax sett á laggirnar til að fara yfir þetta mál, þetta gamla plagg, og færa það til þess sem við Íslendingar viljum hafa sem okkar samfélagssáttmála.

Þetta hefur ekkert með einhvers konar þjóðernishyggju að gera. Mér er afskaplega hlýtt til Dana, dönsku drottningarinnar og alls hennar fólks. Hins vegar held ég að íslenska þjóðin eigi rétt á því að fá sinn eigin samfélagssáttmála. Ég held að það sé kominn tími á það.

Fjölmargar breytingar hafa verið gerðar, svo sem mannréttindakaflinn, en yfirleitt eru þetta orðalagsbreytingar, t.d. þegar efri og neðri deildum þingsins var breytt og þær settar saman í eitt þurfti að gera breytingu á stjórnarskránni vegna þess. Það þurfti að gera breytingar (Forseti hringir.) vegna kjördæma og ýmislegs annars sem ég næ ekki að fara yfir. Þetta eru þær breytingar sem hafa verið gerðar sem lúta ekki að þjóðareign eða lýðræðishlutum.