150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

lífeyrissjóðir og fjárfestingar.

[15:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Mér heyrist á svari hæstv. ráðherra að ræðan á Norðurlandaráðsþingi hafi verið einhvers konar tækifærisræða í góðum félagsskap sem eigi ekki að taka of alvarlega eða þegar hæstv. ráðherra talar um að umbylta þurfi skattkerfinu fengu menn varla þá hugmynd að þar væri verið að tala um hluti eins og ívilnanir til kaupa á rafknúnum hlaupahjólum. Ég held að menn hafi almennt gert ráð fyrir því að ráðherrann væri að boða stærri hluti en svo.

Varðandi skuldabréfakaupin, grænu skuldabréfin, sagði hæstv. ráðherra í ræðu sinni:

„Það þarf að tryggja að lífeyrissjóðir og sjóðir hins opinbera fjárfesti í grænum skuldabréfum.“

Nú heyrist mér hins vegar hæstv. ráðherra vera að draga í land með það, að þetta séu bara einhvers konar tilmæli eða væntingar um að lífeyrissjóðirnir ákveði að skilgreina einhver skuldabréf sem græn og kaupi meira af þeim en öðrum.