150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

lífeyrissjóðir og fjárfestingar.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil klára það sem hv. þingmaður spurði um skattana en ég náði ekki að koma að því í fyrra svari mínu. Við höfum boðað græna skatta á flúoraðar lofttegundir og urðunarskatt, sem ég þykist vita að hv. þingmaður hafi gagnrýnt, en hefur sýnt sig að hefur svo sannarlega borið árangur þar sem hann hefur verið lagður á annars staðar á Norðurlöndum. Þegar ég tala um að innleiða græna skatta og græna hvata þá snýst það einmitt um það hvernig við getum breytt samfélaginu okkar og því sem hv. þingmaður sleppti úr ræðu minni þannig að við tryggjum um leið lífsgæði alls almennings, tryggjum félagslegt réttlæti samhliða þessum aðgerðum þannig að breytingarnar séu einmitt hugsaðar í smáum skrefum. Ég tel mjög mikilvægt að lífeyrissjóðir greini möguleikana sem felast í grænum skuldabréfum og tel mjög mikilvægt að ríkið geri það líka því að ég held að það geti þjónað þeim tilgangi að efnahagskerfið færist smám saman í þá átt að þjóna loftslagsmarkmiðum. Þó að ég hafi talað um umbreytingu þá talaði ég ekki um þá byltingu sem hv. þingmaður vísar hér til. En umbreytingar er þörf, (Forseti hringir.) og ég held að við séum flest sammála um það í þessum sal, til þess að laga kerfið okkar að þessum markmiðum.