150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[15:24]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en mér finnst óþægilegt þegar ráðherra talar um „bara“ — það er ekkert „bara“. Við erum löggjafinn og þess vegna spyr ég: Var nógu góður bragur á þessu? Var þetta nógu vel undirbúið? Hefði þá ekki átt að breyta löggjöfinni víðar? Það erum við sem gerum það hér, hæstv. ráðherra.

Stjórnarskráin kveður á um að það er þingið sem setur á skatta og enginn annar þannig að ég segi líka að með breytingunni um að taka átta mánuðina sem fengust í afturvirka leiðréttingu frá 1. janúar sem eingreiðslu á launahækkun sem veldur því að höggið er miklu meira geta sveitarfélögin sagt: Þú hækkaðir í launum um 150.000 kr. á mánuði og nú verður þú aldeilis að blæða fyrir það með því að við ætlum svo sannarlega að lækka húsnæðisstuðninginn til þín. Það er þetta sem ég er að tala um, það hefði hugsanlega verið möguleiki, hæstv. ráðherra, ekki satt, að dreifa þessu á átta mánuði þannig að höggið hefði ekki orðið svona mikið? Gætum við ekki hafa gert þetta betur?