150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

framlög til fatlaðra og öryrkja.

[15:27]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. „Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir.“

Herra forseti. Þetta er bein tilvitnun í umsögn Öryrkjabandalagsins um fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar. Nú efast ég ekki um góðan ásetning hæstv. félagsmálaráðherra um málefni öryrkja en hins vegar ljúga tölurnar ekki. Eingöngu er gert ráð fyrir 3,5% hækkun á grunnframfærslu öryrkja sem er lægra en hækkun launavísitölu og er litlu hærra en sjálf verðbólguspáin. Samkvæmt því eiga öryrkjar að sitja eftir öðrum hópum.

Öryrkjar eru hópur sem við í þessum sal ákveðum launin hjá. Nú stefnir í að örorkulífeyrir verði 90.000 kr. lægri en lágmarkslaun. Það er meira en milljón á ári. Til viðbótar er eingöngu sett í fjárlögin um einn tíundi af því sem kostar að afnema krónu á móti krónu. Þessi ríkisstjórn leggur einnig til lækkun til réttindagæslu fatlaðra, lækkun til hjálpartækja, lækkun til endurhæfingarþjónustu, lækkun til verndaðra vinnustaða og lækkun til vinnusamninga öryrkja. Hvað er eiginlega í gangi, herra forseti? Við erum heldur ekki búin að gleyma því þegar meiri hlutinn beinlínis lækkaði fyrirhugaða fjármuni til öryrkja milli umræðna á fjárlögum og við fjármálastefnuna.

Herra forseti. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Telur hann kjör öryrkja vera fullnægjandi? Treystir ráðherra sér til að lifa á 256.000 kr. á mánuði (Forseti hringir.) eins og hann ætlast til að meiri hluti öryrkja geri eða er ráðherra tilbúinn að taka eitthvert mark á 30 blaðsíðna umsögn um fjárlagafrumvarpið og leggja fram breytingartillögu þegar frumvarpið kemur til 2. umr. í næstu viku?