150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

framlög til fatlaðra og öryrkja.

[15:32]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra ætlar að gera betur. Það vill bara svo til að þessi ríkisstjórn hefur nú þegar lagt fram þrjú fjárlagafrumvörp og á einungis ein fjárlög eftir þannig að tíminn er einfaldlega á þrotum. Þolinmæðin er sömuleiðis á þrotum. Við höfum í þessu landi á þriðja tug þúsunda öryrkja. Þeir eiga fjölskyldur og aðra sem reiða sig á þá og þykir vænt um þá og þessi hópur hefur einfaldlega verið skilinn eftir aftur og aftur. Hæstv. ráðherra þarf ekkert að taka endilega mark á Samfylkingunni í þessum sal en ég bið ráðherra að taka a.m.k. mark á Öryrkjabandalaginu eða verkalýðshreyfingunni eða bara öryrkjanum sjálfum, því að fjármunirnir eru svo sannarlega fyrir hendi.

Ég spyr, hæstv. forseti: Af hverju er ekki hægt að bæta kjör öryrkja áður en við lækkum veiðileyfagjöld um 40% eins og ríkisstjórnin hefur gert? Af hverju er ekki hægt að bæta kjör öryrkja áður en við lækkum erfðafjárskatt og bankaskatt eins og ríkisstjórnin vill gera?

Herra forseti. Það er hægt að gera ýmislegt en þá þarf pólitískan vilja til að gera það og hann hefur svo sannarlega skort hjá núverandi ríkisstjórn.