150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

aðgerðir í loftslagsmálum.

[15:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég get bara alls ekki tekið undir það sem hv. þingmaður segir um að hér sé um handahófskenndar aðgerðir að ræða. Það er kolrangt. Ef við skoðum milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar segir í skýrslu hennar frá október 2018 að ríki heims þurfi að einbeita sér að orkuskiptum þar sem skipt er úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Það er akkúrat það sem við erum að gera og leggja áherslu á með þeirri aðgerðaáætlun sem við lögðum fram. Vil ég þó taka fram að við lögðum þá aðgerðaáætlun fram áður en skýrsla IPPC kom fram. Það sama kemur fram í þeirri skýrslu, að leggja eigi áherslu á að endurheimta vistkerfi, draga úr magni koltvísýrings í andrúmslofti með því að binda það og það er akkúrat sú áhersla sem við höfum lagt líka.

Hv. þingmaður nefndi rannsóknir í hafinu og hvernig þær megi bjarga hafinu, en rannsóknirnar sem slíkar munu náttúrlega ekki bjarga því að súrnun minnki heldur aðeins draga úr losuninni. Þetta þekkjum við vel og (Forseti hringir.) það er það sem undirritaður átti við.