150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[15:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur og talar gat ekki sótt þetta málþing vegna þess að ríkisstjórnarfundur dróst á langinn og ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins hljóp þar í skarðið. Það er unnið eftir framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og þar á hefur engin stefnubreyting orðið. Ég hef fengið fregnir af þessum panel eða umræðum sem áttu sér stað og heyrt af pistlum sem hafa gengið ritaðir af að ég held borgarfulltrúum Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Ég hef ekki haft tækifæri til að setja mig nákvæmlega inn í þá pistla en ég hef haft fregnir af málinu. Ég segi algjörlega skýrt út að það er engin stefnubreyting í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Við vinnum eftir þeirri framkvæmdaáætlun sem samþykkt hefur verið og við höfum m.a. gert margt mjög gott í þeim málaflokki eins og t.d. í samræmdri móttöku flóttafólks þar sem eru auknar fjárveitingar á næstu árum. Við gerum enn betur en við höfum verið að gera með því t.d. að þeir sem koma hingað sem hælisleitendur geti farið inn í sama módel og kvótaflóttafólkið er að gera.

Það er engin stefnubreyting hvað þetta snertir. Ég hafði ekki tækifæri til að vera þarna en hv. þingmaður hefur greinilega náð að túlka allt sem ráðuneytisstjórinn sagði betur en það sem ráðherrann hefur fengið fregnir af. Eins og ég segi er algjörlega óbreytt stefna hér og ég bið hv. þingmann að benda mér á eitthvert mál þar sem félagsmálaráðuneytið eða félagsmálaráðherra hefur skert þjónustu eða ekki gengið nægilega langt í þjónustu við innflytjendur. Í þessari ríkisstjórn höfum við einmitt verið að bæta í hvað það snertir og ég fagna líka nýrri þingsályktunartillögu sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé lagði fram um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda. Ég er mjög fylgjandi þeirri tillögu og við höfum verið að vinna úr henni. Ég þakka fyrir brýninguna frá hv. þingmanni sem auðsjáanlega er (Forseti hringir.) vel í stakk búinn til að túlka allt sem ráðuneytisstjórinn sagði í þessum umrædda panel þar sem ráðherrann gat því miður ekki verið.