150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[15:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mér fannst ummælin svo alvarleg að ég sá ástæðu til að ræða þau við þó nokkra fundarmenn sem þarna voru og lesa opið bréf til ráðherra um þau ummæli sem ráðherra virðist ekki hafa lesið enn þá ef marka má orð hans hér. Ég treysti því að hæstv. ráðherra muni samt svara því bréfi. Fólk sem sat þennan fund var mjög slegið yfir yfirlýsingum ráðuneytisstjóra ráðuneytis vinnumarkaðar og málefna innflytjenda af því að þetta lýsir auðvitað, ég get ekki annað sagt, gríðarlegum fordómum gagnvart stöðu innflytjenda á vinnumarkaði og gríðarlegu áhugaleysi ráðuneytisins og ráðuneytisstjóra þess á að sinna málefnum þessa hóps.

Það er alveg rétt að aukið hefur verið í varðandi móttöku kvótaflóttamanna og mjög jákvæð breyting þar, en þetta varðar allan þann stóra hóp innflytjenda sem hér starfar og vinnur og leggur ómetanlegt framlag til samfélagsins á hverjum degi, að tryggja réttarstöðu þessa hóps og sýna raunverulegan (Forseti hringir.) áhuga að taka á þeim kerfisbundnu brotum sem framin eru á hópi sem er viðkvæmur fyrir einmitt vegna þess að hann þekkir ekki réttindi sín á vinnumarkaði. (Forseti hringir.) Ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins virðist ekki telja neina þörf á að ráða bót á því. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann gera? Hyggst hann (Forseti hringir.) leiðrétta þessi ummæli eða biðjast afsökunar á þeim?

(Forseti (SJS): Það er ekki hægt að bera fram spurningar þegar menn eru komnir 20 sekúndur fram yfir ræðutíma.)