150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

fjárframlög til Skógræktarinnar.

[15:49]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Að rækta skóg er einn af þeim þáttum sem horft er til er binda á kolefni. Blásið hefur verið til sóknar í skógrækt og landgræðslu af hálfu stjórnvalda. Miðað við fjárlög 2020 er þó eins og hljóð og mynd fari ekki saman þegar talað er um framlög til Skógræktarinnar. Hinir svokölluðu Mógilsárpeningar, 28 milljónir, og Straumspeningar, 76 milljónir, samtals 104 milljónir, eru skornir af. Af þeim 200 milljónum sem stjórnvöld lögðu til sem nýja fjármuni vegna loftslagsmála skiluðu sér 32 milljónir til Skógræktarinnar. Lagt var upp með á sínum tíma að skipting milli Landgræðslunnar og Skógræktarinnar væri 50:50. Mig langar að vita hvað hefur breyst, hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, því að í umsögn umhverfis- og samgöngunefndar með fjármálaáætlun 2020–2024 segir að lögð sé áhersla á, með leyfi forseta, „að forgangsraðað verði auknum fjármunum til skógræktarmála umfram þá fjárhæð sem nú er í ríkisfjármálaáætluninni.“ Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlun 2019–2023 í júní 2018 kemur fram að lögð er áhersla á, með leyfi forseta, „að forgangsraðað verði til skógræktarmála. Framlög til þeirra drógust mjög saman árin eftir bankahrunið en fjárfesting í þeim málaflokki styður við mörg markmið stjórnvalda í umhverfismálum“.

Nú þegar það lítur þannig út að Skógræktin þurfi að draga úr kostnaði við rekstur stofnunarinnar er aukning í þann lið sem heitir Framlög til skógræktar á lögbýlum, sem er vel. Skógræktin getur vel tæklað aukin umsvif miðað við hvernig hún er rekin í dag með mannafla um allt land. Skógræktin getur það hins vegar ekki þegar skorið er niður rekstrarfé til stofnunarinnar. Til að hægt sé að vera með ráðgjöf til bænda, gott gæðakerfi og árangursmat þarf fólk að vera í vinnu. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef Skógræktin á að fara að draga úr þessu eftirliti og segja upp fólki, minnka þjónustu við bændur, fækka störfum úti um landið (Forseti hringir.) og á sama tíma er talað um stórauknar aðgerðir í loftslagsmálum.