150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

fjárframlög til Skógræktarinnar.

[15:51]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja út í þetta atriði sem hefur fengið talsverða umfjöllun, kannski annars staðar en akkúrat í þessum sal, og vil byrja að nefna að á fjögurra ára tímabili, samkvæmt þeirri áætlun sem sá sem hér stendur og forsætisráðherra kynntu í júlí sl., er stefnt á tvöföldun á umfangi skógræktar, tvöföldun á umfangi landgræðslu og tíföldun á umfangi endurheimtar votlendis. Votlendi hljómar kannski meira en það er vegna þess að það er lítið í dag en við stefnum á að gera það af meiri krafti.

Það sem hér kemur síðan fram eru breytingar á fjárframlögum til Skógræktarinnar. Ég vil í fyrsta lagi benda á að á bls. 83 í fylgiriti með fjárlögunum, þar sem tekin eru fram framlög til skógræktar á lögbýlum, voru þau um 220 milljónir í ár en verða 307 milljónir á árinu 2020. Síðan er reyndar villa á árunum 2021 og 2022, það er sagt að upphæðin sé áfram 307 milljónir en eykst upp í 362 milljónir og 392 milljónir árið 2022.

Ég biðst afsökunar á því að þetta hafi ekki skilað sér rétt inn í fjárlagafrumvarpið. Ástæðan fyrir því að það birtist eins og það sé niðurskurður til Skógræktarinnar á milli ára er fyrst og fremst sú að þar er um að ræða tímabundna heimild til Skógræktarinnar sem felst í eignarnámsbótum vegna jarða sem komu inn á ákveðnu tímabili. Það voru um 76 milljónir á ári og þær eru ekki lengur til staðar. Hér er ekki verið að reyna að draga tennurnar úr Skógræktinni heldur aukast framlögin til hennar þvert á móti á næstu árum. Ég er jafnframt að leita leiða til að leiðrétta eitthvað þann mun sem verður (Forseti hringir.) af þeirri stóru, má segja, breytingu sem þarna er að verða á milli ára út af eignarnámsbótafjármagninu.