150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar á mínum stutta tíma að beina athygli þingheims að skólakerfinu okkar, leik-, grunn- og framhaldsskólum. Rétt fyrir helgi kom út skýrsla landlæknis sem innihélt rannsókn á stöðu geðræktar, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Niðurstöðurnar voru ekkert sérstaklega jákvæðar. Styrkja þarf formlegar stoðir og innviði skólakerfisins alls, sérstaklega grunnskóla, til að sinna geðrækt og forvörnum og síðast en ekki síst styðja börn og ungmenni sem glíma við geðræna erfiðleika. Við þurfum ekki síður að byggja upp innviði skólakerfisins á öllum skólastigum til að styðja við þau börn og ungmenni sem alast upp á heimilum þar sem fjölskyldumeðlimir, foreldrar eða systkini, eiga við slíka erfiðleika að etja. Í skólakerfinu er helsta snertingin við börn og ungmenni og kjöraðstæður til að koma þeim til aðstoðar. Þá kom í skýrslunni líka bersýnilega í ljós vanmáttur skólakerfisins, kennara og annarra starfsmanna, til að þekkja geðrænan vanda og vita hvernig á að tryggja bestu mögulegu þjónustu og umönnun. Þar virðist því miður hvorki vera nægileg fagleg vinna né þekking til staðar.

Herra forseti. Það er staðreynd að neysla hérlendis á tauga- og geðlyfjum er töluvert meiri en í nágrannaríkjum okkar. 10% allra barna og unglinga á Íslandi nota geðlyf að staðaldri. Árið 2018 jókst neysla 10–14 ára barna á ávísuðum svefnlyfjum um rúm 20% og tíunda hvert barn á sama aldri fékk ávísað örvandi lyfi. Eru þau þrefalt fleiri en í Svíþjóð sem kemur næst okkur af Norðurlöndunum. Með auknum forvörnum í skólakerfinu er ég handviss um að við getum fækkað inngripum í lyfjaformi og, það sem skiptir mestu máli, bætt líðan barna og ungmenna. Þangað skulum við stefna með forvörnum.