Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:09]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að hefja þessa þörfu umræðu og eins vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlag hennar í umræðuna og góð viðbrögð fyrr og nú við ýmsum málum sem upp hafa komið varðandi þennan málaflokk. En auðvitað þekkjum við þingmenn allir það að hafa tekið þátt í ýmiss konar aðstoð vegna þessara mála.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem sá þingmaður talaði á undan mér hefur sagt en þar kom margt fram sem er athyglisvert og kemur fram í skýrslunni sem hún minntist á. Það er alveg ljóst að forvarnir eru númer eitt, tvö og þrjú sem við þurfum að taka upp, forvarnir í skólunum, forvarnir fyrir þetta unga fólk. Þar þurfum við fyrst og fremst að nota unga fólkið sjálft til að taka þátt í forvörnum. Það er reynsla þeirra sem vinna í þessum málaflokki að unga fólkið hlustar fyrst og fremst á jafnaldra sína og samtímafólk og tekur meira mark á því en þeim sem eldri eru.

Auðvitað er á ferðinni fólk sem er að aðstoða, en við þurfum að tryggja þetta miklu betur. Það þarf líka að styðja meðferð ungs fólks á Vogi, hjá SÁÁ og í Hlaðgerðarkoti þar sem er búið að lengja meðferðina sem tekur miklum stakkaskiptum, bæði hvað varðar húsnæði og meðferð, og þar er góður árangur af meðferðinni. Hið sama er að segja um Krýsuvík. Við þurfum að styrkja þessa staði, þeir eru ólíkir að gerð og efni en það er líka það sem fólk í þessari neyð þarf á að halda. Við þurfum að ráðast gegn vandanum og ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið af hálfu framsögumanns að þetta er gríðarlega mikill málaflokkur sem við þurfum öll að láta okkur varða.