150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:16]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka upp þetta mikilvæga málefni. Við erum því miður hér á þingi, og má segja líka að það sé jákvætt, að tala um þetta reglulega á tveggja til fjögurra vikna fresti, ég var að fara yfir það. Þetta kemur reglulega upp og þá spyr maður: Hvað er verið að gera? Við þekkjum vandann sem við stöndum frammi fyrir og við viljum á okkar viðkvæmustu stundum að við stöndum ekki ein. Við viljum hafa heilbrigðisþjónustu sem tekur utan um fólkið okkar hvort sem það á við líkamlega kvilla að etja eða andlega. Úr þessu verður að bæta og við verðum að tryggja það að þegar ungt fólk, sérstaklega ungt fólk, sem er í mikilli hættu veikist og leitar að hjálp, leitar aðstoðar og við vitum af því, þá sé einhver sem grípi það. Í dag er það þannig að unga fólkið er í sérstakri áhættu þegar kemur að andlegum veikindum. Fimmta hver ung kona hér á landi mælist með þunglyndiseinkenni. Það er miklu meira en í öllum öðrum Evrópuríkjum. Algengasta dánarorsök karlmanna á aldrinum 18–25 ára er sjálfsvíg, eins og kom fram áðan. Auðvitað eru þetta ömurlegar staðreyndir en þær eiga að ýta við okkur. Ég vona að þegar við tökum næstu umræðu hafi eitthvað þokast enn meira fram á við í heilbrigðisþjónustunni.

Tillögur liggja fyrir í þinginu sem við getum mjög vel tekið afstöðu til. Við í Viðreisn ásamt þriðjungi þingmanna úr öllum þingflokkum settum fram, bæði síðasta vetur og núna nýlega, tillögu sem færir sálfræðiþjónustu og aðra klíníska viðtalsmeðferð undir sama hatt og aðra heilbrigðisþjónustu sérfræðinga. Það eru til úrræði, það eru til tillögur. Það er hægt að vinda sér í þetta og ég vona innilega að ríkisstjórnin horfi ekki á þessa tillögu og segi: Það skiptir máli hvaðan gott kemur. (Forseti hringir.) Tökum frekar undir þessa tillögu okkar þingmanna í öllum flokkum sem einmitt setur sálfræðiþjónustu, klíníska meðferð, undir sama hatt (Forseti hringir.) og alla aðra heilbrigðisþjónustu. Unga fólkið á það skilið.