150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég finn mig eiginlega knúna til að koma ungu fólki til varnar vegna ummæla tveggja hv. þingmanna í þessari umræðu. Í fyrsta lagi spyr hv. þm. Sigurður Páll Jónsson hvort við séum að innræta ungu fólki rétt hugarfar þannig að þau spyrji sig hvað þau geti gert fyrir samfélagið en ekki hvað samfélagið eigi að gera fyrir þau. Gott og vel. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson telur mikilvægt að börnum sé kennd tilfinningafærni, það vanti eitthvað upp á tilfinningafærni unga fólksins okkar og það muni leysa þessi vandamál. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmenn hafi velt fyrir sér hvort þeir hafi lært tilfinningafærni í grunnskóla. Hafa þeir svona miklu meiri tilfinningafærni en unga fólkið okkar í dag? Mér er til efs að tilfinningafærni hafi verið kennd í grunnskólum landsins þegar hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson var í skóla. Ég held að það hafi ekkert með það að gera hvort börnin okkar eða ungt fólk í dag hafi tilfinningafærni eða ekki. Mögulega hafa nokkrar staðreyndir um kvíða, þunglyndi og væntingar ungs fólks í dag með það að gera. Það er alveg rétt að ungt fólk mælist hærra en aðrir hópar þegar kemur að hlutfalli streitu, einmanaleika og óhamingju. Stjórnmálaþátttaka hópsins hefur líka dregist saman. En ég velti fyrir mér: Hvað hefur samfélagið gert fyrir þann hóp? Það er nefnilega ekki sérlega mikið, hv. þingmenn.

Unga kynslóðin hefur dregist aftur úr í tekjum á síðustu áratugum. Kaupmáttur hópsins hefur ekki aukist í samræmi við kaupmátt annarra hópa. Ungt fólk býr við minna starfsöryggi í dag en áður. Það hefur komið fram í þessum sal. Fólk á aldrinum 18–35 ára er með lægri kaupmátt í dag en árið 1990, sem er tímabilið sem sumir þingmenn hér inni voru að reyna að safna sér fyrir húsnæði, reyna að hafa borð fyrir báru, koma sér fyrir, reyna að eignast almennilegt líf. Þetta höfum við ekki boðið unga fólkinu okkar og mögulega hefur það eitthvað með kvíða þeirra og þunglyndi að gera að við gerum óraunhæfar og ómögulegar kröfur til þeirra, heimtum að þau sinni samfélagi sínu en gerum ekkert fyrir þau í staðinn.