150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:32]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Það eru margvíslegir þættir sem skapa heilsu og líðan fólks. Má þar nefna hreyfingu, samskipti, mataræði, almenn lífsskilyrði og það umhverfi sem við búum í. Þeir þættir stuðla að betri heilsu og geta sömuleiðis haft neikvæð áhrif á heilsuna. Samkvæmt rannsóknum á högum ungs fólks telur mikill meiri hluti þess líkamlega og andlega heilsu sína góða eða mjög góða. Við þurfum að spyrja okkur og spyrja unga fólkið okkar: Hvernig bætum við líðan og andlega heilsu? Tíðarandinn hefur sannarlega breyst með tilkomu samfélagsmiðla og falsfrétta og opinberunarbyltinga um vandamál heimsins. Erum við kannski of dugleg að halda neikvæðum málum á lofti í samfélaginu? Skoði maður rannsóknir á högum ungs fólks gerist eitthvað á árunum 2011 og 2012, síðan þá hefur andlegri heilsu ungs fólks hrakað að þeirra eigin sögn og síðan þá hefur þeim unglingum fækkað sem stunda skipulagt félags- og tómstundastarf. En við megum alls ekki taka afmarkaðan hóp og gera algildan fyrir alla umræðuna því að um hvaða hóp erum við að tala? Erum við að tala um þá sem eru lítið líklegir til að lenda í vandræðum? Erum við að tala um hópinn sem er líklegur til að lenda í vandræðum eða erum við að tala um hópinn sem er kominn í vandræði?

Við eigum fullt af úrræðum í öllum þeim kerfum sem við höfum smíðað, heilbrigðiskerfi, skólakerfi, félagskerfi o.s.frv. Þessi kerfi þurfa að tala saman, sem þau gera ekki alltaf. Við þurfum að nýta öll þau úrræði, líta ekki á þau sem sjálfsögð, stórefla íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarf, styrkja félagsmiðstöðvarnar hringinn í kringum landið en þær sinna ákaflega miklu forvarnastarfi. Forvarnir eru ekki einskiptisaðgerð heldur viðvarandi viðfangsefni og þannig náum við árangri. Umfram allt þurfum við að sýna því áhuga sem unga fólkið fæst við, hvort sem það er að spila tölvuleik eða fótbolta.