150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

316. mál
[17:13]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á skilgreiningu á smáskipum í 3. gr. laganna þannig að þau teljist vera skip sem eru 15 metrar að skráningarlengd eða styttri í stað 12 metra. Þá er lögð til sams konar breyting á 12. gr. laganna um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum þannig að í stað þess að miðað er við mönnun á fiskiskipum, sem eru 12 metrar að skráningarlengd eða styttri, verði miðað við skip sem eru 15 metrar að skráningarlengd eða styttri.

Markmiðið með þessari breytingu er að einfalda regluverkið um mönnun skipa. Í gildandi lögum er notast við fjögur lengdarviðmið og miðast mönnunarkröfur við þær lengdir. Þetta eru sem sagt skip sem eru styttri en 12 metrar, skip styttri en 24 metrar, skip frá 24 metrum en styttri en 45 metrar og loks skip sem eru 45 metrar að skráningarlengd eða lengri.

Landssamband smábátaeigenda hefur vakið athygli á því að félagsmenn þess starfi eftir þessum lögum en einnig lögum um stjórn fiskveiða sem segja að enginn megi stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi. Almenn veiðileyfi eru tvenns konar, veiðileyfi með aflamarki og með krókaaflamarki. Árið 2013 var gerð breyting á lögum um stjórn fiskveiða þannig að nú geta þeir bátar einir öðlast veiðileyfi með krókaaflamarki sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 30 brúttótonn.

Samkvæmt þessu geta krókaaflamarksbátar mest verið 15 metra langir en ef skipin eru 12 metrar að skráningarlengd eða lengri falla þau ekki lengur undir ákvæði áhafnalaga um smáskip, heldur í flokk skipa á stærðarbilinu 12–24 metrar með þeim auknu kröfum til skipstjórnar-, stýrimanna- og vélstjórnarréttinda sem því fylgja.

Frá reglum um mönnun eru síðan ákveðnar undantekningar. Ef sigling er til að mynda styttri en 14 klukkustundir er mögulegt að sækja um heimild til undanþágu frá mönnunarnefnd skipa og má skipið þá vera án stýrimanns. Er sú heimild jafnan veitt. Síðan er í lögunum og reglugerð kveðið á um sérreglu vegna vinnuskipa sjókvíaeldis sem eru skip allt að 15 metrum eða undir 30 brúttórúmlestir, með vélarafl allt að 750 kílóvött. Mega handhafar 12 metra réttinda fá útgefið skírteini til að starfa á skipum af þessu tagi með því að bæta við sig ákveðnum námskeiðum.

Með frumvarpi þessu er því stefnt að því að mæta þessu misræmi með því að færa viðmið smáskipa úr 12 metrum í 15 metra þannig að samræmi sé í löggjöf og eitt viðmið gildi fyrir öll smáskip. Með því má fækka sérreglum og einfalda umhverfið atvinnulífinu og stjórnvöldum til hagsbóta. Samhliða þessum breytingum þarf að endurskoða þær menntunarkröfur sem gerðar eru til öflunar réttinda á smáskip sem taka mið af breyttri lengd. Er lagt til að frumvarp þetta taki gildi 1. september 2020 þannig að stjórnvöld hafi tíma til að innleiða þær breytingar áður en lagabreyting tekur gildi.

Loks er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða í lögin þar sem kveðið er á um að þeir réttindamenn sem hafi skírteini til starfa á skipum styttri en 12 metrar að skráningarlengd skuli til 1. janúar 2021 eiga rétt á því að fá útgefin skírteini til að gegna sömu störfum á skipum sem eru 15 metrar að skráningarlengd eða styttri að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og kröfum um lágmarkssiglingatíma eins og nánar er kveðið á um í reglugerð. Er með þessu ætlað að tryggja að lagabreytingin verði ekki óþarflega íþyngjandi fyrir réttindamenn sem hafa öðlast reynslu á skipum. Verða þeim sem hafa tilskilinn fjölda siglingatíma sem kveðið verður nánar á um í reglugerð veitt réttindi á skip sem eru 15 metrar að skráningarlengd eða styttri.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.