150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[17:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Matvælasjóð hef ég heyrt þessar raddir. Ég fundaði með stjórn Bændasamtakanna um daginn. Þar eru greinilega skiptar skoðanir uppi. Þetta sjónarmið um rammasamninginn kom fram en ég hef ekki heyrt að það standi ekki til að endurskoða hann. Endurskoðun búvörusamninga er í lögskipuðu ferli og það starf er leitt af Haraldi Benediktssyni og Brynhildi Pétursdóttur. Það er verið að vinna núna í endurskoðun rammasamningsins. Það kann vel að vera að einhverjir úr forystusveit bænda vilji ekki endurskoða hann, en þá er endurskoðun búvörusamninganna í uppnámi, segi ég.

Ég er, eins og ég greindi stjórn Bændasamtakanna frá, að vinna að ályktun og samþykkt Alþingis. Mér ber að fara að henni og Alþingi greiddi því atkvæði með 47 samhljóða atkvæðum að stofna þennan sjóð. Það kann vel að vera að andstaða sé við þetta hjá bændum en ég held að hún byggi á ákveðnum misskilningi og menn hafi ekki lesið greinargerðina með frumvarpinu nægilega vel. Það hefur alveg legið fyrir hvernig þessi sjóður á að byggjast upp. Það á að deildaskipta honum. Það er sérstaklega áréttað í greinargerðinni að það á að gæta þess sérstaklega við stefnumótun nýs sjóðs að landbúnaðurinn fái tilhlýðilega hlutdeild í stuðningi þannig að hlutfallsleg skipting fjármagns til þessarar atvinnugreinar verði með sambærilegum hætti. Ég átta mig ekki á því hvaða drauga menn eru, sumir hverjir, ég er ekki að saka hv. þingmann um það, að reyna að draga hér upp á veggi, væntanlega þeir sem vilja sitja að sínu sem þeir hafa fengið úr Framleiðnisjóði. En ég hvet alla sem á þessi orðaskipti hlýða til að kynna sér úthlutanir úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins, þær eru æði skrautlegar og ég hef grun um að þar sé ekki allt eins og menn ætluðu.