150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í morgun var 26 ára albönsk kona, komin nærri níu mánuði á leið, send úr landi ásamt tveggja ára barni sínu og eiginmanni. Hún var send úr landi þrátt fyrir að ljósmæður og læknar Landspítalans legðust gegn því í nótt að hún myndi fljúga. Á meðan konan var inni á spítalanum beið lögreglan með blikkandi ljós við spítalann. Samkvæmt svörum landlæknisembættisins til Stundarinnar er litið alvarlegum augum að ráðleggingum sérfræðinga Landspítalans hafi ekki verið hlítt þegar kona var flutt úr landi í nótt, konan sé í áhættuhópi og í mjög viðkvæmri stöðu. Það er áhættumeðganga þegar konur í viðkvæmri stöðu hælisleitenda ganga með barn undir belti og því er áhættusamt fyrir þær að ferðast, segir yfirljósmóðir mæðraverndar í samtali við Ríkisútvarpið.

Herra forseti. Maður trúir því ekki að svona sé staðið að verki en það er það samt. Því verður að breyta. Aðfarir af þessu tagi mega ekki endurtaka sig. Þær eru hneisa. Ábyrgðin liggur hjá hæstv. dómsmálaráðherra, hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmönnum Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Það þýðir lítið að tala fallega og segjast vilja reka mannúðlega stefnu gagnvart flóttamönnum og hælisleitendum en láta svo slík vinnubrögð viðgangast. Verði það gert er lítið mark takandi á ríkisstjórn og þingmönnum stjórnarflokkanna í þeim efnum. Mér er misboðið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)