150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. 26 ára konu á 36. viku meðgöngu var í morgunsárið vísað brott frá Íslandi. Konan, hingað komin í leit að vernd ásamt maka og tveggja ára syni, er í áhættumeðgöngu og í sérstaklega viðkvæmri stöðu, hvort tveggja líkamlega og félagslega. Í dvöl sinni hér hafði hún hvorki hitt fæðingarlækni né ljósmóður þar til seint í gærkvöldi er hún leitaði ásjár fagfólks á Landspítala í kjölfar óvæntrar komu lögreglu á dvalarstað fjölskyldunnar. Konan átti sinn fyrsta tíma í mæðravernd hér á landi á morgun. Fjölskyldan treysti því að beðið yrði með brottvísun þar til niðurstaða fengist í mál þeirra. Fjölskyldan treysti því líka að íslensk stjórnvöld myndu ekki stefna lífi konunnar og ófædds barns hennar í hættu á lokaviku meðgöngu með því að láta hana fljúga langa leið frá Íslandi til heimalands, mögulega með millilendingum sem auka mjög á áhættuna. En þar skjátlaðist fjölskyldunni. Íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að virða að engu eindregnar ráðleggingar læknis og ljósmóður á Landspítala – háskólasjúkrahúsi um að konan skyldi ekki send í flug. Íslensk stjórnvöld virtu einnig að vettugi þá faglegu skoðun sérfræðinga sem töldu ekki óhætt að senda hana í flug. Fulltrúar íslenskra stjórnvalda drógu fram eldra vottorð ritað af lækni Útlendingastofnunar, byggt á læknisskoðun sem fram fór upp úr miðjum október sl. eða fyrir rúmum þremur vikum. Á því vottorði stóð, með leyfi forseta: „Fit to fly“ eða hæf til að fljúga. Hæf til að íslensk stjórnvöld megi stefna lífi konunnar og ófædds barns hennar í hættu.

Þetta, herra forseti, er það sem ráðherrar í ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kalla mannúðlega stefnu í málefnum flóttamanna.

Herra forseti. Þetta er algjörlega óboðlegt og ómanneskjulegt og ég fordæmi (Forseti hringir.) þessi vinnubrögð Útlendingastofnunar, alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra, læknis á móttökumiðstöð Útlendingastofnunar (Forseti hringir.) og ríkisstjórnarinnar allrar sem lætur slíkt gerast á sinni vakt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)