150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Á hverju ári kemur út í lífið, og ég vildi að ég gæti sagt atvinnulífið, hópur ungmenna með skerta starfsgetu. Þau koma full tilhlökkunar úr námi á starfsbrautum þar sem víða er unnið frábært starf og þau hafa farið í starfsþjálfun til undirbúnings. Þau vita hvað þau geta og hvað þau geta ekki, allt þetta til þess að hlaupa beint á vegg sem ekki lætur undan. Fyrir réttu ári áttu sér stað í þingsal umræður um hvað stjórnvöld geta gert til þess að standa undir væntingum þessa hóps og standa undir kröfum og þörfum samfélagsins, tryggja að úrræði og atvinnutæki fyrir þennan hóp séu til staðar. Hæstv. ráðherra félagsmála var hér í þeim umræðum og fékk spurningarnar: Hvað hyggst ráðherra gera til að búa til hvata fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir? Mun ráðherra beita sér fyrir því að áætlun verði gerð hið fyrsta fyrir þennan hóp og kanna hversu kostnaðarsamt það er fyrir samfélagið að bregðast ekki við?

Þeir fjölmörgu sem tóku þátt í umræðunni voru sammála um tvennt, það þarf hvata og það þarf aðgerðir frekar en orð. Í kjölfarið var í sama mánuði stofnaður verkefnishópur á vegum menntamálaráðuneytisins til að vinna tillögur. Það átti að bregðast hratt við. Hópurinn skilaði tillögum sínum snemma í vor og til þeirra hefur síðan ekkert spurst. Ég velti fyrir mér hvort þrátt fyrir öll hin fögru orð í þeirri umræðu sem hefur átt sér hér stað, þrátt fyrir þá staðreynd að við vitum hversu kostnaðarsamt það er fyrir samfélagið til viðbótar við þann sársauka sem þetta veldur þeim einstaklingum sem um ræðir, hvort þetta sé enn eitt dæmið um orð frekar en aðgerðir.

Ég lýsi eftir tillögum þessarar nefndar og ég lýsi eftir staðfestingu ráðherra menntamála og ráðherra félagsmála á að þau ætli að láta aðgerðir fylgja orðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)