150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Varaflugvellir og Reykjavíkurflugvöllur. Ég vil benda enn og aftur á mikilvægi þess að varaflugvellir hér á landi séu ávallt til staðar þegar þörf er á. Ítrekað hafa komið upp tilvik á Keflavíkurflugvelli sem kalla á það að vélar þurfi að leita til varaflugvalla til lendingar. Eitt slíkt tilvik varð fyrir rúmri viku eða 28. október sl. þegar Boeing 757 vél Icelandair komst í hann krappan á Keflavíkurflugvelli þegar brautin lokaðist fyrir lendingu en aðflug var hafið. Vélin hafði ekki nægt eldsneyti til að nýta varaflugvöllinn á Akureyri en hefði mögulega getað lent í Reykjavík ef það hefði verið reyndur flugumferðarstjóri í turninum til að meta aðstæður og leiðbeina. Svo var hins vegar ekki því að Isavia ákvað að spara og mannar ekki turninn í Reykjavík með flugumferðarstjóra á þeim tíma sem vélarnar eru að koma inn frá Bandaríkjunum á morgnana. Það er mjög brýnt að tryggja að reyndur flugumferðarstjóri sé til staðar í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli frá kl. 5 á morgnana til að mæta óvæntum aðstæðum eins og þessum sem skapast geta með skömmum fyrirvara. Slík tilvik hafa oft komið upp og munu áfram koma upp. Við þurfum að geta brugðist hratt við. Flugöryggi verður að vera í fyrirrúmi. Mál Boeing-vélarinnar frá 28. október er komið til skoðunar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Það er kominn tími til að horfast í augu við það að við þurfum á öflugum varaflugvöllum að halda á Íslandi til að tryggja betur öryggi flugfarþega. Ég legg það til að samgönguráðherra tryggi að frá kl. 5 á morgnana sé til staðar flugumferðarstjóri í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli.