150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Heimaslátrun hefur oft valdið miklum usla og orðið tilefni til umræðu þegar bændur eru að stunda heimaslátrun, útbúa kjöt fyrir fjölskyldu sína og sína nánustu, að ef þeir fara eitthvað aðeins út fyrir það hefur það oft ratað á borð lögreglu. Nú er svo komið að þegar ríkisfyrirtæki eða ríkisstofnun ætlar að aðstoða bændur eða auka verðmætasköpun í samfélaginu, auka fjölbreytileika vara, auka samkeppni við kannski afurðastöðvarnar og valmöguleikana, gera atvinnuveginn öflugri, styrkja atvinnuveg bænda, þá er lögreglan einnig komin í það mál. Þetta gengur ekki upp. Við þurfum að auka frelsi bænda til athafna af því að þeir hafa sýnt mikilvægi sitt í gegnum tíðina í verðmætasköpun og mikilvægi þess hvernig þeir hafa tekist á við landgræðslu og loftslagsvandann. Þeir hafa tekið á móti ferðamönnum og tryggt það með öðrum orðum að ferðaþjónustan geti byggst upp. Þeir hafa nýtt eignarréttindi á sínu landi til að skapa verðmæti og gæði fyrir okkur, lífsgæði. Við þurfum að halda þessu áfram en ekki senda þá sem sýna einhvern lit í því að reyna að auka verðmætasköpun úr landinu, vöruúrval, bæta hag neytenda og val þeirra, fyrir dóm. En öllu frelsi fylgir ábyrgð. Auðvitað þurfa heimaslátrun og nýsköpun að fylgja einhverjar lágmarksreglur og annað slíkt. Ég treysti atvinnuvegaráðuneytinu, sem hefur hafið að minnka báknið, að gera það í þessu máli og tryggja bændum frelsi til athafna.