150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Matvælastefna er mikilvæg í íslensku samfélagi og hún er núna í vinnslu í fyrsta sinn. Þar eru lykilatriði eins og fjölbreytni fæðunnar, loftslagsmálin, fæðuöryggi og aukinn útflutningur, þ.e. ný tegund af orkufrekum iðnaði á Íslandi sem mikils má vænta af. Hann mun snúast um t.d. fiskeldi og ylrækt, þar með talið fiskeldi á landi, og jarðvarminn og ylræktin verða í einu af helstu aðalhlutverkum í þessu öllu saman því að í henni felast miklir möguleikar. Ég get nefnt þörungaræktun og framleiðslu ýmiss konar sérfæðis úr sjó, eldi kulvísra og kulsælla fisktegunda, grænmetisframleiðslu og einnig ávexti, samanber forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Herra forseti. Menntun í ylrækt er þá undirstaða alls þessa og þar með verður Garðyrkjuskólinn í Ölfusi í aðalhlutverki. Hann hefur lent í ýmiss konar erfiðleikum undanfarið, ég ætla ekki að rekja þá, en um leið hefur verið unnið vel á þeim bæ þrátt fyrir þá erfiðleika. Ég nefni nýja námskrá, góða samvinnu við greinina og ýmiss konar nýbreytni sem bryddað hefur verið upp á í skólanum.

Hann hefur ekki hlotið nægilegt viðhald. Húsnæði er orðið úrelt og það hefur verið reynt að berja í þá bresti en það er langt í land enn þá. Nú er þörf á endurreisn þessa skóla og það þarf að tryggja öflugt starfsnám en líka framhaldsnám á efra stigi og möguleika til nýsköpunar. Sú vinna fer nú fram.

Ég hvet þingmenn, ráðherra. Landbúnaðarháskóla Íslands og greinina til að gera veg þessa skóla sem allra mestan og tryggja hátt menntunar- og starfsstig ylræktar í landinu. Á því munum við öll hagnast.