150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ofbeldi birtist í mörgum myndum. Nýverið áttu það að vera gleðitíðindi að króna á móti krónu væri orðin 65 aurar á móti krónu. Fólk fékk borgaðar 100.000 kr., nokkra mánuði aftur í tímann. Það leyfði sér eitthvað, hugsaði með sér: Nú get ég borgað skuldir, get hætt að fá mér bara vatn og brauð, get keypt mér eitthvað almennilegt í matinn einn daginn. Næstu mánaðamót var þeim kippt niður á jörðina, allt skert, allt tekið. Hvers lags ofbeldi erum við búin að búa til? Hvernig getum við leyft okkur að koma svona fram við veikt fólk? Ekki ár, ekki mánuði, ekki vikur heldur áratugi aftur í tímann.

Okkur ber skylda til að sjá til þess að allir fái að lifa með reisn á Íslandi. En ofbeldið heldur áfram. Fjórði hver starfsmaður Vinnueftirlitsins hefur orðið fyrir einelti á vinnustað og einn af hverjum fimm hefur orðið fyrir ofbeldi í vinnunni. Þetta var í fréttum síðustu viku. Árlegur dagur gegn einelti og kynferðislegu ofbeldi verður haldinn á landsvísu 8. nóvember og er í samræmi við Sameinuðu þjóðirnar. Okkur ber að sjá til þess að stöðva allt ofbeldi, sama í hvaða mynd það birtist, hvort sem það er fjárhagslegt, kynferðislegt eða annað ofbeldi. Okkur er ekki stætt á því að leyfa að áratugum saman sé stundað sama ofbeldi gagnvart fólki sem getur ekki varið sig. Ef við getum ekki haft einu sinni Vinnueftirlitið í lagi, sem á að sjá um eftirlit með því að ekki sé verið að brjóta á fólki í vinnunni, ef þar er allt logandi í einelti og ofbeldi segi ég: Hvernig í ósköpunum ætlum við að fara að því að stöðva þetta? Okkur ber skylda til þess og við eigum að gera það þegar í stað.