150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Í umræðuþáttum helgarinnar var sett fram sú áhugaverða kenning að lykillinn að farsælu samstarfi þessarar ríkisstjórnar væri að hverjum ráðherra leyfðist að fara sínu fram í málaflokki sínum án athugasemda eða gagnrýni frá öðrum stjórnarflokkum eða öðrum þingmönnum stjórnarsamstarfsins. Mér þykir þetta áhugaverð kenning en mér þykir eiginlega enn áhugaverðara að fylgjast með samstarfi ríkisstjórnarinnar í framkvæmd. Hvað sjáum við gerast? Ríkisstjórn sem er ábyrg fyrir einni mestu útgjaldasprengju í ríkisfjármálunum sem enginn ber ábyrgð á? Þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýna það harðlega, fara reyndar með ráðuneytið sem ber ábyrgð á þeim málaflokki en greiða að sjálfsögðu atkvæði með útgjaldasprengjunni. Svo er það skortur á samkeppni sem og frelsi bænda sem nefnt var í ágætri ræðu áðan. Þingmenn gagnrýna, þingmenn segja þetta ótækt, en aðhafast að sjálfsögðu ekkert og greiða atkvæði með óbreyttu ástandi frá degi til dags. Hér er verið að ríkisvæða heilbrigðiskerfið. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýna það harðlega, en hvað gerist í atkvæðagreiðslu? Að sjálfsögðu eru greidd atkvæði með en auðvitað með háværum mótmælum í fjölmiðlum þeirra sömu og ýta á græna takkann þegar á reynir. Síðast í nótt og í morgun fylgdumst við með skammarlegu máli í tilfelli innflytjenda þar sem alla mannúð skorti í afgreiðslu þess máls, mannúð sem þingmenn Vinstri grænna hafa svo mjög kallað eftir í innflytjendastefnu þessa lands. Og hvað gerist? Jú, þingmenn gagnrýna en aðhafast ekkert.

Ég held nefnilega að ríkisstjórnarflokkarnir hafi fundið upp hina fullkomnu uppskrift að ríkisstjórnarsamstarfi. Hver fer sínu fram en enginn ber ábyrgð á gjörðum ríkisstjórnarinnar. Það er sennilega besta fjarvistarsönnunin sem er til í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)