150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

umræður um málefni samtímans.

[14:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp, um leið og ég vil að sjálfsögðu undirstrika málfrelsi þingmanna, því ég tók eftir því áðan að þingmönnum stjórnarandstöðunnar varð eðlilega tíðrætt um þetta hörmulega mál frá í nótt og í morgun þar sem albanskri konu, sem komin er níu mánuði á leið, var vísað úr landi. Ómennskt kerfi var að störfum. Ekki einn þingmaður frá stjórnarmeirihlutanum ræddi þetta mál. Við hæstv. forseti erum sæmilega þingreynd, forseti þó mun þingreyndari en ég, en ég man þá tíð að þingið var mun meira að ræða þau mál sem brunnu á okkur hverju sinni en ekki að ræða mál þremur vikum eftir að þau gerðust.

Ég beini því til hæstv. forseta að athuga hvernig hægt er að breyta og bæta sérstakar umræður, sem áður voru kallaðar utandagskrárumræður, því að þetta er dæmi um mál sem er svo verðugt að ræða við hæstv. dómsmálaráðherra, ekki bara í óundirbúnum fyrirspurnum sem hafa alltaf verið, heldur að þingið fái tækifæri til þess að fara djúpt og vel ofan í svona mál eins og þetta hörmungarmál frá í morgun er. (Forseti hringir.) Það brennur á okkur núna og þá tel ég að þingið eigi að hafa tæki til þess að leyfa okkur að tjá okkur og ræða þessi mál hér innan dyra.