Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

umræður um málefni samtímans.

[14:08]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti telur þetta orðna efnisumræðu um alveg sérstakt mál. (Gripið fram í.) Vegna þess að hér er rætt um liðinn störf þingsins minnir forseti á að þar eiga þingmenn þess kost að óska eftir því að beina máli sínu til annars þingmanns og fá svör frá honum. Það hefðu menn getað í þessu tilviki ef þeir hefðu viljað t.d. eiga orðastað við forystumenn stjórnarflokkanna í viðkomandi þingnefnd. Að öðru leyti er það í valdi hvers og eins þingmanns að taka upp það sem honum stendur hjarta næst undir þessum lið. (LE: Þetta er ekki efnisumræða, þetta er umræða um hvernig við getum rætt málin …) Forseti leyfir sér að fara yfir þá möguleika sem þingmenn hafa í þeim efnum — (LE: Já, já. …) (Forseti hringir.)

Ef forseti fær hljóð. Forseti ætlar ekki að venja menn á að geta gripið fram í fyrir sér hér þegar hann er að tala af sinni hálfu. Svo langt verður ekki gengið.

Forseti er að benda á að þingmenn geta einmitt undir þessum dagskrárlið óskað eftir því að beina máli sínu til tiltekins þingmanns og að hann verði til svara og þá er hann settur á mælendaskrá. Svo er að sjálfsögðu hægt að óska hvenær sem er eftir sérstakri umræðu og ef það er sérstaklega brýnt og mikilvægt mál er reynt að greiða fyrir því að sú umræða komist að sem fyrst. Í sjálfu sér skortir ekki úrræði og tækifæri innan ramma þingskapa til að taka upp brýn mál.