150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

umræður um málefni samtímans.

[14:12]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Mér er svolítið hugleikið, ekki eingöngu út af þessu hörmulega máli, að þingið geti sýnt að við ræðum málefni líðandi stundar en ekki stundar sem var fyrir tveimur, þremur, fjórum vikum. Í dag erum við að senda inn beiðni um sérstaka umræðu um tiltekið efni og svo bíður þetta og bíður þar til að ráðherrum þóknast að koma hingað í þingið og ræða tiltekið málefni. Mér hugnast ekki sú þróun. Við í Viðreisn ætlum að senda strax beiðni um að fá sérstaka umræðu á morgun við hæstv. dómsmálaráðherra um málefni innflytjenda, um málefni albönsku konunnar, vanfærrar konu sem er komin á níunda mánuð meðgöngu og var vísað úr landi, og þetta er auðvitað allt eins og við vitum í boði ríkisstjórnar Vinstri grænna. En undir þessum dagskrárlið er mér sérstaklega umhugað um það að við fáum tækifæri í þinginu til að eiga oftar orðastað í gegnum sérstaka umræðu við hæstv. ráðherra um mál sem brenna á fólkinu okkar, brenna á fólkinu sem býr hér á landi og vill fá að vera á Íslandi.