150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

umræður um málefni samtímans.

[14:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Mig langar bara í kjölfar þessarar umræðu sem hefur átt sér stað milli hv. þingmanna og hæstv. forseta að nefna það sem mér hefur þótt vera vandamál í málaflokknum um útlendinga almennt og það er nákvæmlega hvernig eigi að ræða þessi mál af þeirri dýpt sem þau þurfa þannig að hægt sé að uppfylla það sem við teljum okkur alltaf trú um að við séum að gera, að útlendingalögin okkar og kerfið séu mannúðleg. Ef maður spyr Útlendingastofnun er bent á kærunefnd útlendingamála og þá er bent á dómstóla og á löggjafarsamkunduna. Það er bent hingað og þangað. Hvergi virðist vera vettvangur þar sem hægt er að ræða þessi mál og nákvæmlega þá spurningu hvar mannúðin sjálf eigi heima.

Þrátt fyrir ágæta leiðsögn virðulegs forseta finnst mér vanta vettvang þar sem þingmenn geta fyrir opnum tjöldum og heiðarlega rætt sín á milli um þennan málaflokk. Ég finn hann ekki. Ég tel hann ekki vera hv. allsherjar- og menntamálanefnd og mér hefur ekki fundist það vera þingsalurinn hingað til (Forseti hringir.) þannig að ég rétti virðulegum forseta þetta vandamál og tek undir að þetta er vandamál. Við þurfum einhvern stað til að ræða þessi mál af alvöru.