150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

umræður um málefni samtímans.

[14:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Bara til að nota hina mínútuna sem ég hef til að ræða þetta: Nú er stungið upp á sérstakri umræðu. Ég styð þá ósk. Aftur á móti, eins og ég hef ítrekað sagt við lok slíkra umræðna, eru þær mjög stuttar. Þingmaður fær almennt tvær mínútur til að tala. Þegar við tölum við ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum fær maður tvisvar sinnum tvær mínútur. Í störfum þingsins getur maður jú kallað til einn annan þingmann, ef viðkomandi þingmaður hefur tíma og vilja er hægt að tala við þann ágæta þingmann strax á eftir manni í einmitt tvær mínútur. Þegar ég hugsa til þess að halda sérstaka umræðu um útlendingamál eða mannúð í útlendingamálum sé ég ekki fyrir mér að hún dugi. Ég sé ekki fyrir mér að tvær mínútur dugi. Ég sé ekki fyrir mér að störf þingsins dugi og sé ekki fyrir mér að óundirbúnar fyrirspurnir dugi. Ég sé ekki fyrir mér að nefndastörf dugi.

Virðulegur forseti. Mér finnst vanta almennt meiri tíma og meiri virðingu fyrir nauðsyn þess að hér sé gefinn tími fyrir almennar umræður um gang mála, ekki bara þingmálin sem við erum að afgreiða hverju sinni og reynum að skófla út eins hratt og við getum og ekki í tveggja mínútna formi hér og þar heldur taka alvöru djúpa umræðu yfir (Forseti hringir.) hálfan dag eða svo um einhver málefni. Það er fjarstæðukennd hugmynd þegar ég hugsa til reynslu minnar á Alþingi, virðulegi forseti, og það er það sem ég kvarta undan.