150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

innheimta opinberra skatta og gjalda.

314. mál
[14:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Með þessu frumvarpi er ætlunin að tryggja sem best réttaröryggi gjaldenda gagnvart ríkissjóði þegar kemur að innheimtu opinberra skatta og gjalda og lögfesta gildandi framkvæmd. Þá felur frumvarpið í sér nokkrar breytingar á gildandi framkvæmd sem talið er að verði til bóta og auki jafnræði gjaldenda. Það má segja að efnisatriði frumvarpsins séu að nokkru leyti sótt til nágrannalanda okkar og að þangað séu sóttar efnislega sumar fyrirmyndir að efnisgreinunum.

Frumvarpið hefur að geyma heildstæðar reglur sem áður voru á víð og dreif í hinum ýmsu lagabálkum og verklagsreglum. Gildissvið frumvarpsins nær til innheimtu á sköttum, gjöldum og sektum, ásamt vöxtum, álagi og öðrum þeim kostnaði sem lagður er á af stjórnvöldum og sem innheimtumönnum ríkissjóðs er falið að innheimta. Gildissviðið nær jafnframt til innheimtu erlendra skatta, gjalda og sekta sem innheimtumanni ríkissjóðs er falið að innheimta samkvæmt milliríkjasamningum. Þá tekur frumvarpið til endurgreiðslna stjórnvalda vegna oftekinna skatta, gjalda og sekta sem lagðar eru á af stjórnvöldum og lagt til að lög nr. 29/1995 um sama efni falli niður. Lögin gilda þó ekki um sektir sem innheimtar eru á grundvelli laga um fullnustu refsinga eða með vísan til þeirra. Sérákvæði annarra laga um skatta, gjöld og sektir sem mæla fyrir á annan veg ganga framar ákvæðum laga þessara.

Frumvarpið mun ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum. Undantekning er varðandi endurgreiðslu ofgreiddra gjalda þar sem skilyrði til greiðslu dráttarvaxta við endurgreiðslur eru að nokkru þrengd með lögunum frá núgildandi lögum um endurgreiðslu ofgreiddra gjalda, nr. 29/1995. Markmiðið er að tryggja jafnræði gjaldenda og að þeir verði eins settir óháð því hvaða sérþekkingu eða sérfræðiaðstoð þeir búa yfir eða njóta. Það getur haft jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs verði frumvarpið að lögum vegna þess að þarna er í raun og veru um það að ræða að þeir sem hafa notið aðstoðar sérfræðinga, lögmanna, annarra sérfræðinga í kannski bókhaldi eða lagalegum atriðum hafa með því að senda ríkissjóði bréf stofnað til upphafsdags dráttarvaxtakröfu en það er mikill minni hluti mála sem þannig háttar til um. Við mikinn meiri hluta endurgreiðslu reiknast þá ekki dráttarvextir en með því að gera þá breytingu sem hér er lagt til má segja að það misræmi sem í þessu felst í framkvæmdinni verði úr sögunni. Ekki er við því að búast að það hafi mikil áhrif á afkomu ríkissjóðs, eins og ég hef hér rakið, enda eru málin tiltölulega fá þar sem dráttarvextir hafa reiknast á þessum forsendum.

Talið er að heildarlög um innheimtu opinberra gjalda og skatta hafi samfélagslegan ávinning í för með sér og verði til þess að auka gæði stjórnsýslunnar og verði jafnframt til hagsbóta fyrir gjaldendur þar sem reglur verður að finna um málefnið á einum stað, reglur sem áður voru jafnvel ekki birtar en fólust í verklagsreglum. Þetta frumvarp er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í góðri samvinnu við innheimtu- og skráasvið ríkisskattstjóra og að höfðu samráði við Persónuvernd, Fjársýslu ríkisins og skattrannsóknarstjóra. Þess má geta að drög að frumvarpinu voru í tvígang lögð fram á samráðsgátt stjórnvalda.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.