150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

innheimta opinberra skatta og gjalda.

314. mál
[14:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum með sérstaka vinnu í gangi núna sem ég er að setja af stað þar sem við reynum að glöggva okkur betur á því hvar falla milli stafs og hurðar skatttekjur sem við gætum mögulega innheimt með betra skipulagi á innheimtusviðinu. Það má segja að við höfum gert margar tilraunir til að ná utan um umfang slíkra mála á undanförnum árum út frá ólíkum sjónarhornum, en afskriftir skattkrafna eru miklu meira en bara að segja sögu um árangur innheimtuaðgerða. Afskriftir eru líka spegilmynd af ákveðnu ástandi í efnahagsmálum og mætti segja að við því sé að búast að afskriftir opinberra krafna séu óhjákvæmilegur hluti heildarálagningar og innheimtukerfisins.

Ég tek þó undir með hv. þingmanni að við ættum að fylgjast vel með þessum lið og gæta að því hvernig hann þróast frá einum tíma til annars. Ég myndi ætla, án þess að hafa skoðað það sérstaklega mjög nýlega, að þá myndi dragast upp sú mynd af fortíðinni að eftir því sem efnahagsaðstæður í landinu hafa verið betri hafi afskriftir verið minni og eftir því sem þær hafi versnað hafi álögð opinber gjöld innheimst verr og endað í afskriftum.

Þannig er í þessu frumvarpi að við erum að kynna til sögunnar nýmæli um afskriftir krafna í 16. gr. þar sem er verið að búa til ákveðna undantekningarreglu af því sem ég myndi vilja kalla af praktískum ástæðum og lögfesta ákveðið viðmið fyrir stjórnkerfið til að hafa til hliðsjónar og horft til tiltekinna krafna og miðað við tíu ára tímabil, þ.e. þegar stofndagur kröfunnar er orðinn tíu ára.