150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

innheimta opinberra skatta og gjalda.

314. mál
[14:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég fagna því að sjálfsögðu að í huga hæstv. ráðherra sé náttúrlega áhyggjuefni að svo háar skattkröfur þurfi að afskrifa og ég vona svo sannarlega að unnin verði bragarbót á því. Vonandi er þetta frumvarp eitt skref í þá átt og auk þess fagna ég því að það sé skoðað sérstaklega með afskriftirnar. Ég held að það sé mikilvægt að fara vel ofan í hvað veldur því að verið er að afskrifa svo mikla peninga sem ríkissjóður gæti nýtt, eins og ég sagði áðan, með margvíslegum hætti og eru ríkissjóði mikilvægir.

Hvort lýtur þetta sérstaklega að fyrirtækjum eða einstaklingum? Það væri fróðlegt að fá hlutfallið þar á milli. Réttilega nefndi ráðherra að þetta fer svolítið eftir efnahagsástandinu hverju sinni. Það er ákveðin meinsemd, ef ég má orða það þannig, að það þurfi að fara þá leið að afskrifa þegar ákvarðaðar kröfur. Þarna úti eru einstaklingar og fyrirtæki sem bar að greiða þegar ákvarðaða skatta og gjöld en þurftu ekki að greiða það einhverra hluta vegna. Þess vegna held ég að við verðum að fara ofan í hlutina þannig að þá sé hægt að vinna bug á þessu með t.d. leiðbeinandi aðgerðum og bættri innheimtu. Bætt innheimta hlýtur að vera hluti af leiðum til að draga úr þessum afskriftum sem eru því miður allt of miklar.