150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

innheimta opinberra skatta og gjalda.

314. mál
[14:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér vekur hv. þingmaður athygli á mikilvægum þætti skattaframkvæmdarinnar. Þetta eru atriði sem snúa að álagningu og innheimtu og síðan á endanum afdrifum slíkra mála. Afskriftirnar eru, eins og ég sagði áður, óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera með kerfi af þessum toga, þ.e. ég held að við verðum að horfast í augu við það að í mörgum tilvikum innheimtast kröfur einfaldlega ekki og eru þar af leiðandi afskrifaðar. Ég nefni sem dæmi gjaldþrot lögaðila.

Í 16. gr. er horft til einstaklinga og þar er fært í lög það nýmæli að skrifa út skilyrði þess að einstaklingar geti fengið endanlega afskrifaða skattkröfu með dráttarvöxtum ef öll skilyrðin sem þar eru tínd til eru uppfyllt. Það er ekki fjarri lagi að segja að það sé ákveðið ákall frá framkvæmdaraðilum í skattkerfinu að fá heimild til slíkrar meðferðar lögfesta vegna þess að ég held að okkur sé öllum ljóst að við tilteknar aðstæður, þegar liðinn er þetta langur tími og fólk hefur að öðru leyti sýnt viðleitni til að standa í skilum — hérna er verið að horfa til tíu ára viðmiðs — geti verið skynsamlegra að þeir sem bera ábyrgð á innheimtuframkvæmdum hafi skjól í lagareglum en byggi ekki niðurstöðu í málum á óskrifuðum verklagsreglum eða eftir atvikum einhverri tilfinningu fyrir því sem kann að þykja sanngjarnt varðandi frekari innheimtuaðgerðir. Að þessu leytinu til held ég að greinin sé mjög til bóta til að skýra stöðuna.