150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

innheimta opinberra skatta og gjalda.

314. mál
[14:32]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Í 7. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Hafi skattar og gjöld ekki verið greidd á eindaga skal greiða dráttarvexti af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga.“

Þetta er um dráttarvexti, álag og kostnað sem fellur á skattgreiðendur.

Í 8. gr. um endurgreiðslu oftekins fjár segir, með leyfi forseta:

„Vextir skulu þó ekki greiddir ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að fé var oftekið.“

Ríkið fær grið frá því að greiða vexti í 30 daga en skattgreiðendur ekki.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta þyki sanngjarnt. Er þetta eðlilegt? Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þetta geti ekki verið á jafnræðisgrunni, að annaðhvort bæði skattgreiðendur og ríkið fái 30 daga grið eða hvorugur aðilinn?