150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

innheimta opinberra skatta og gjalda.

314. mál
[14:35]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér hefði eiginlega þótt betra að nálgast þetta hinum megin frá og segja þá að vextir á skattgreiðendur færu að telja við eindaga frekar en gjalddaga, að þá væri a.m.k. miðað við það kerfi sem almennt gengur og gerist og er meira að segja að finna í lögum um vexti og verðtryggingu.

Í 7. gr., um dráttarvexti, álag og kostnað, segir einnig, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að lækka eða fella niður dráttarvexti og álag nema lög mæli fyrir á annan veg.“

Í 8. gr., um endurgreiðslu oftekins fjár, segir sömuleiðis, með leyfi forseta:

„Krafa um endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum fellur úr gildi fyrir fyrningu þegar fjögur ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað eða inneign myndaðist. Þegar krafa um endurgreiðslu fyrnist fyrnast jafnframt áfallnir vextir.“

Hér er um að ræða annað skrýtið dæmi um ójafnvægi þar sem engin fyrning á sér stað gagnvart skattgreiðendum en ríkið getur í ákveðnum undantekningartilvikum ákveðið að gjaldkrafa þess fyrnist.

Aftur spyr ég hvort ekki sé hægt að gera þetta aðeins jafnara þannig að allir aðilar komi jafnir til leiks í svona málum. Þetta eru fá mál og leiðinleg en koma yfirleitt upp vegna þess að einhver gerði heiðarleg mistök. Þá finnst mér allt í lagi að koma til móts við það. Í þeim tilfellum þar sem ekki er um heiðarleg mistök að ræða, þar sem vissulega er um svik að ræða, er þetta ekki það úrræði sem við þurfum að beita heldur eru önnur úrræði sem koma fyrir í þessu annars ágæta frumvarpi.