150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

stimpilgjald.

313. mál
[14:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér með fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013. Um er að ræða afnám stimpilgjalds af skjölum varðandi eignayfirfærslu skipa. Í frumvarpinu er lagt til að felld verði á brott ákvæði úr lögum um stimpilgjaldsskyldu til að greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignayfirfærslu skipa en samkvæmt lögunum nær gjaldskyldan eingöngu yfir skip sem eru yfir 5 brúttótonnum. Núgildandi lög um stimpilgjald eru töluvert frábrugðin eldri lögum um sama efni en þau lög voru flóknari og stimpilgjaldsskyldan umfangsmeiri. Með tímanum voru þó gerðar breytingar í þá átt að stimpilgjaldsskyldum tilvikum var fækkað þar sem m.a. eignayfirfærsla á loftförum, minni skipum og kaupskipum var undanþegin stimpilgjaldi, en áfram var gert skylt að greiða stimpilgjald af skjölum sem vörðuðu eignayfirfærslu skipa yfir 5 brúttótonnum. Eftir gildistöku núgildandi laga um stimpilgjald eru þessi skip einu atvinnutækin sem enn bera stimpilgjald þegar eignayfirfærsla á sér stað en í lögskýringargögnum laganna er ekki að finna sérstakan rökstuðning fyrir þeirri ástæðu.

Með vísan til sjónarmiða um jafnræði atvinnugreina er talið rétt að ekki verði lengur innheimt stimpilgjald vegna skjala er varða þessa eignayfirfærslu. Það má leiða að því líkum að á sínum tíma hafi tekjusjónarmið ríkissjóðs ráðið för, þ.e. að þarna hafi verið um að ræða tekjustofn sem menn hafa verið tregir til að gefa eftir, en hér er fyrir því mælt að það sé mikilvægara að jafnræði milli atvinnugreina sé tryggt og því er þessi breyting lögð til. Það er hægt að halda því fram að að breytingin muni bæta rekstrarumhverfi útgerða á Íslandi, leiða til samkeppnishæfara rekstrarumhverfis og það verði sambærilegra við erlendar aðstæður, aðstæður hjá nágrannalöndum þar sem gjaldtaka af þessu tagi er ekki í gildi. Að þessu leytinu til má segja að frumvarpið sé líklegt til að styðja við íslenskan sjávarútveg og í þessu alþjóðlega samhengi verður ekki fram hjá því horft að íslenskur sjávarútvegur er í mikilli alþjóðlegri samkeppni.

Ekki er gert ráð fyrir því að umrædd lagabreyting hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs heldur verði áhrifin mjög óveruleg. Ég myndi telja að málið væri mjög til bóta og dæmi um það að ríkisstjórnin vill sýna í verki vilja sinn til að einfalda laga- og regluverk og skatta og gjöld fyrir atvinnustarfsemi í landinu.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.