Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[14:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er mælt fyrir frumvarpi til laga um Menntasjóð námsmanna. Lögin eiga að leysa af hólmi gildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, og er frumvarpið afrakstur heildarendurskoðunar á lögum um LÍN sem lengi hefur staðið yfir. Með nýjum lögum er ætlunin að efla stuðning við námsmenn þar sem jafnræði og sanngirni verða höfð að leiðarljósi, foreldrar studdir mun betur en áður hefur verið gert, hvatt verður til betri námsframvindu og búið til réttlátara og nútímalegra námslánakerfi.

Virðulegi forseti. Frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna var unnið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu eftir tillögum starfshóps sem skipaður var fulltrúum frá forsætisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands. Sérstakt samráð var haft við námsmenn við vinnslu frumvarpsins og starfsmenn Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í frumvarpinu er brugðist við þeim miklu breytingum sem orðið hafa á íslensku menntakerfi, námsumhverfi og samfélaginu öllu. Komið er til móts við gagnrýni samtaka námsmanna, annarra hagsmunaaðila og Ríkisendurskoðunar á það misræmi sem útdeiling ríkisstyrks til námsmanna í formi vaxtaniðurgreiðslu og afskrifta felur í sér. Stuðningurinn við námsmenn verður sýnilegri og jafnari en raunin er í gildandi lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í frumvarpinu er girt fyrir áhættu sem steðjar að núverandi lánasjóði samkvæmt áhættugreiningum sem gerðar hafa verið og spornað við þeirri þróun sem þar yrði að óbreyttu. Frumvarpið á að hvetja til betri framgangs nemenda og auka skilvirkni kerfisins auk þess að nýting ríkissjóðs verður gagnsærri og frumvarpið á að færa fyrirkomulag námsaðstoðar nær því sem tíðkast á Norðurlöndunum.

Virðulegur forseti. Tíu atriði ber hæst í frumvarpinu. Í fyrsta lagi fá lánþegar námsstyrk í formi 30% niðurfærslu á höfuðstóli námsláns, ásamt verðbótum, ljúki þeir prófgráðu innan tiltekins tíma. Í öðru lagi geta námsmenn fengið beinan stuðning vegna framfærslu barna í stað lána og er það algjör nýbreytni sem tekur mið af þeirri lýðfræðilegu þróun sem hefur verið að eiga sér stað á Íslandi. Meðlagsgreiðendur eru ekki undanskildir og þar með verður Ísland fyrst Norðurlanda til að veita námsmönnum styrk vegna meðlagsgreiðslna. Í þriðja lagi verður Menntasjóði heimilt að greiða námslán út mánaðarlega ólíkt því sem nú er og hefur það verið baráttumál stúdenta í mjög langan tíma. Í fjórða lagi geta lánþegar valið við námslok hvort þeir endurgreiði námslán sín með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi. Er hér um að ræða algert nýmæli í takt við þann efnahagslega stöðugleika sem hefur verið á Íslandi og í takt við þróun þeirra kjara sem ríkissjóður Íslands hefur verið að fá á skuldabréfamarkaði sem eru þau bestu sem hafa verið í langan tíma. Í fimmta lagi verður meginreglan sú að námslán verði að fullu greidd með mánaðarlegum afborgunum. Þau skulu að fullu endurgreidd þegar lánþegi nær 65 ára aldri. Í sjötta lagi getur lánþegi valið að endurgreiða námslán sín með tekjutengdum afborgunum að því gefnu að námi ljúki í síðasta lagi á því ári sem hann verður 35 ára. Í sjöunda lagi verður námsaðstoð ríkisins niðurfærsla á höfuðstól og stuðningur vegna barna undanþeginn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í áttunda lagi falla niður ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum teknum í tíð eldri laga sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá. Þetta er mikið framfaraskref fyrir núverandi lánþega sjóðsins og alger umbylting og eftir þessu hefur verið kallað í mörg ár. Í níunda lagi verður Menntasjóði heimilt að veita tímabundnar ívilnanir vegna endurgreiðslu námslána hjá lánþegum búsettum og starfandi á sérstökum svæðum og vegna tiltekinna námsgreina. Að lokum, í tíunda lagi, er gert ráð fyrir að afborganir námslána ásamt álagi standi að fullu undir lánveitingum sem Menntasjóðurinn veitir. Sjóðurinn verður sjálfbær.

Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi og komi til framkvæmda 1. júlí árið 2020.

Virðulegur forseti. Menntun er lykillinn að framtíðinni. Á okkur hvílir sú skylda að horfa fram á við, setja okkur metnaðarfull markmið og tryggja að námsstuðningur hins opinbera stuðli að jafnrétti til náms, sé sanngjarn og gagnsær. Ég trúi því að með frumvarpi um Menntasjóð námsmanna sé stigið mikið framfaraskref sem eigi eftir að nýtast námsmönnum vel og öllu samfélaginu okkar.

Virðulegur forseti. Ég þakka þeim fjölmörgu sem komu að endurskoðun og tóku þátt í samráði um frumvarpið með því að senda okkur umsagnir sínar. Umsóknir bárust úr ýmsum áttum og sýnir það glöggt hversu samfélagslega brýnt þetta mál er fyrir okkur öll.

Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hæstv. allsherjar- og menntamálanefndar.