150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og hvet hann til að fara mjög vandlega yfir málið. Mig langar að nefna nokkur dæmi um hvernig við hugsum þetta og hvernig stór hluti námsmanna kemur mun betur út úr þessu kerfi en gamla kerfinu. Ég ætla að nefna eitt dæmi. Sigríður er þrítug og nýútskrifuð úr meistaranámi, býr í foreldrahúsum og er með um 500.000 kr. í mánaðarlaun. Áætluð námslán á námstímanum eru 3,8 milljónir, sem sagt í núverandi kerfi skuldar hún 3,8. Með niðurfærslunni 2,7. Í gamla kerfinu er hún 14 ár að borga til baka, í nýja kerfinu 11 ár.

Það sem við erum sérstaklega að leggja áherslu á er auðvitað barnafólk í þessu landi. Við viljum jafna kjörin og við viljum gera kerfið mun gagnsærra en áður hefur verið.

Þá langar mig einmitt að nefna barnafólkið. Jón er þrítugur, nýútskrifaður úr meistaranámi, hann er í sambúð og þau eru með þrjú börn. Hann tekur 10,6 milljónir í núverandi kerfi. Í nýja kerfinu (Forseti hringir.) skuldar hann 5,8 milljónir. Í stað þess að vera 27 ár að greiða til baka verður hann 17 ár að því. (Forseti hringir.) Og nú spyr ég jafnaðarmanninn hvort þetta sé ekki (Forseti hringir.) sanngjarnara, réttlátara og betra kerfi. Svar mitt er augljóst: Jú, það er miklu betra, framsækið og gott kerfi.