150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög gaman að hlusta á jafnaðarmanninn hér í pontu. Í gamla kerfinu var það þannig að sumir einstaklingar gátu fengið 85% niðurfelld af sínum námslánum, 85% meðan aðrir fengu kannski 1–2%. Hér er verið að stuðla að auknum jöfnuði, réttlæti, sanngirni, allt annað kerfi en hefur verið og er búið að berjast fyrir svo árum skiptir. Staðan er einfaldlega sú og það kunna að vera vonbrigði, það kunna að vera sár vonbrigði, að á bilinu 97–99% eru betur sett eða jafn vel sett í nýja kerfinu, í menntasjóðskerfinu. Þetta er miklu sanngjarnara, miklu gagnsærra. Það kemur beinn styrkur. Við erum sérstaklega að huga að barnafólki vegna þess að við vitum hver lýðfræðileg þróun landsins hefur verið. Við ætlum að koma til móts við þetta. Það er verið að stíga (Forseti hringir.) alvöruskref í þá átt að kerfið sé eins og það gerist á Norðurlöndunum og ég hefði haldið að jafnaðarmaðurinn væri ánægðari með það. (LE: … lækka vexti til þess.)