150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil beina spurningu til hæstv. menntamálaráðherra um ábyrgðarmenn. Í frumvarpinu segir að þeir sem teljist ekki tryggir lánþegar geti lagt fram ábyrgðir til þess að fá lán. Ég er að spá í það hverjir þessi ótryggu séu. Er hægt að telja þá upp? Gæti það verið einstaklingur sem hefur óvart á unga aldri lent í því að taka ólögleg smálán og farið þar af leiðandi á vanskilaskrá Creditinfo? Er hann þá einn af þeim einstaklingum sem eru greinilega óábyrgir og eiga ekki rétt á láni? Við erum að tala um að afnema ábyrgðarmannakerfið. Þarna eru einstaklingar sem greinilega verða undir. Spurningin er: Hver á að meta það og á hvaða forsendum er þeim neitað?