150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stóra málið er auðvitað hér að við erum að fella niður ábyrgðarmenn. Við það breytist auðvitað landslagið mikið. Það sem hv. þingmaður nefnir hér eru alger undantekningartilfelli. Ég ætla að skoða aðeins betur nákvæmlega hvernig þetta liggur en mér skilst að það séu mjög fáir sem falla hér undir, en ég þakka hv. þingmanni ábendinguna. Við höfum verið að berjast fyrir því að fella niður ábyrgðarmenn vegna þess að við þekkjum mætavel að fjöldi fólks hefur lent í því að skrifa upp á ábyrgðir fyrir börnin sín eða ættingja og sitja svo uppi með miklar skuldir vegna þess að ekki hefur farið vel hjá viðkomandi og hann lent í erfiðleikum. Þetta er jú málefni margra eldri borgara og ég er virkilega stolt af því að leggja fram frumvarp sem tekur á þessu, að það verði mun meira jafnræði hvað þetta varðar, þ.e. hvernig einstaklingum vegnar og hvaða mögulegu ekki-ábyrgðir eða ábyrgðir falli á viðkomandi aðila. — Ég þakka hv. þingmanni engu að síður fyrir.