150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta skiptir gríðarlegu máli. Við viljum að það sé algjört jafnrétti til náms og allir geti tekið námslán. Um alger undantekningartilvik, eins og ég skil þau, er fjallað í núgildandi lögum. Ég ætla að skoða þetta aðeins betur og þakka hv. þingmanni ábendinguna. Við förum betur yfir kostnaðarmatið. En stóru fréttirnar sem við hljótum að fagna eru engu að síður þær að við séum að falla frá ábyrgðarmannakerfinu. Við þekkjum það mætavel. Átakanlegustu samtölin sem ég hef átt hafa verið við viðkomandi aðila sem hafa verið að taka á sig miklar byrðar vegna þessa þannig að hér erum við að tala um tímamót og mikið framfaramál.

Ég vil hins vegar þakka hv. þingmanni fyrir að fara svona gaumgæfilega yfir þetta og benda á þennan þátt. Við munum skoða hann til hlítar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og auðvitað líka hjá nefndinni.