150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í umsögnum BHM höfum við fengið þær upplýsingar að menntun sé ekki alveg metin til launa til jafns á við það sem gerist hjá samanburðarþjóðum. Þegar tekið er tillit til þess að samkvæmt 16. gr. eru námslán verðtryggð og safna ekki vöxtum á meðan á námi stendur þá eru margföldunaráhrif verðtryggingarinnar þeim mun meiri á lán viðkomandi eftir því sem námið er lengra. Ef viðkomandi er að klára doktorsnám eru lánin frá fyrstu árum búin að byggjast vel upp. Afslátturinn sem kemur með 30% niðurfellingu, námsstyrkurinn, hefur mun minni áhrif á þá sem eru að taka lengra nám og klára doktorsnám á meðan menntun er ekki metin það mikið til launa. Við lendum í smávandræðum þarna sem gæti verið áhugavert að takast á við og þarf að takast á við í stærra samhengi en þarf líka að vinna með í þessu frumvarpi.