150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að BHM hefur bent á þetta varðandi launaþróun og það að meta háskólanám til launa. Það sem við horfum hins vegar á í þessu frumvarpi er að staða flestra er mun betri hjá nýjum Menntasjóði en var hjá gamla LÍN. Vegna þessarar niðurfærslu er fólk mun fyrr á æviskeiðinu búið að greiða námslánin en ella. Við horfum líka fram á svolítið breytta tíma í fjórðu iðnbyltingunni. Fólk fer jafnvel aftur í nám, fær sér nýja gráðu, fer jafnvel í styttra nám. Ég held því að það sé gríðarlegt heillaspor að klára námslánin fyrr en er í núverandi kerfi. Eins og ég nefndi áðan í framsögu minni getur munað allt að tíu árum og auðvitað býr það til nýtt rými til frekari menntunar eða frekari breytinga.