150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er tvennt. Kannski væri hugmynd að þegar viðkomandi klárar grunnnám taki niðurfellingin strax gildi, eða námsstyrkurinn, þó að viðkomandi haldi áfram í lengra námi. Það lækkar höfuðstólinn strax sem hefur áhrif á verðtrygginguna. Hitt sem mig langaði til að vekja athygli á er aðfaranámið sem ég talaði um áður. Það veitir vissulega inngöngu á ákveðna braut í háskóla en veitir ekki hæfnisstigið sem útskrift úr framhaldsskóla veitir almennt. Hægt er að fá námslán og námsstyrk fyrir aðfaranámið, sem er að klára framhaldsskóla, engin réttindi, en ekki námsstyrk fyrir að klára framhaldsskóla sem veitir réttindi. Ef maður klárar háskólabrú, tæki aðfaranámið, t.d. í HR og kæmist þangað inn, fengi maður námslán, en ekki ef maður klárar framhaldsskóla og færi í HR. (Forseti hringir.) Maður fær námslán á einum staðnum en ekki hinum. Það sem ég er að reyna að koma að er að mér finnst að aðfaranámið ætti að vera aðeins staðlaðra og skila réttindum til viðkomandi nemanda, að hann hafi klárað sambærilegt stig og á við um framhaldsskóla.